Fyrir byrjendur

Langar þig að læra póker? Það er ekki eftir neinu að bíða, hér er að finna allt um póker.

Til eru nokkrar útgáfur af póker en einföldust er afbrigði sem kallast Texas Holdem. Í fyrstu getur Texas Holdem litið út fyrir að vera flókið spil en í raun er mögulegt að læra það á nokkrum mínútum og eftir nokkurra klukkustunda æfingu getur byrjandi sýnt nokkra tækni við pókerborðið. Varast skal þó að lenda í pottum á móti reyndari spilurum fyrst um sinn.

Í grunninn snýst Texas Holdem um tvö holuspil hvers spilara og fimm borðspil sem allir nýta saman. Sá sem hefur bestu samsetninguna sem saman stendur af 5 af þessum 7 spilum vinnur pottinn.

Hefjum þá spilið

 1. Fyrst þarf að ákveða hver fær gjafarahnappinn (hnappurinn – dealer button). Oft er það gert með því að allir spilara fá eitt uppsnúandi spil og sá sem fær hæsta spilið fær hnappinn. Kosturinn við að það er að þá líður lengsti mögulegi tíminn þangað hann verður blindur.
 2. Sá spilari sem situr vinstra meginn við hnappinn verður litli blindur. Sá spilari sem situr vinstra meginn við litla blind verður stóri blindur.
 3. Gjafari stokkar hefðbundinn spilastokk með 52 spilum.
 4. Hver spilari fær tvö grúfuspil (annað í einu og gefið frá vinstri til hægri). Þessi spil kallast holuspil.
 5. Þá er komið að fyrstu veðmálsumferð (betting round). Þetta er eina umferðin þar sem að sá spilari sem er vinstra meginn við stóra blindan byrjar veðmálin. Spilarar geta kallað, hækkað eða pakkað (í umferðum 2-4 geta spilarar athugað [check]). Veðmálsumferð líkur þegar allir spilarar sem ekki hafa pakkað hafa sett jafn mikið í pottinn.
 6. Næst tekur gjafarinn efsta spilið ofan að stokknum og leggur það til hliðar á grúfu, þetta kallast brennsluspil. Þetta er gert til að forðast svindl.
 7. Þá setur gjafarinn þrjú uppsnúandi spil á borðið. Þessi spil eru þrjú fyrstu borðspilin (the flop). Þessi spil geta allir notað til að mynda samsetningu við annað eða bæði holuspilin sín.
 8. Spilarinn til vinstri við hnappinn byrjar að veðja í þessari veðmálsumferð (og þær sem eftir eru). Veðmál í þessari umferð eru oft margfeldi á bilinu tvisvar til fimm sinnum stóri blindur en fer þó eftir veðmálstakmörkunum.
 9. Eftir að annarri veðmálsumferð líkur brennir gjafarinn öðru spili og snýr síðan einu spili við og setur það við hlið fyrstu þriggja borðspilanna. Þetta spil er fjórða borðspilið (the turn).
 10. Spilarinn til vinstri við gjafarann hefur þriðju veðmálsumferðina. Veðmál í þessari umferð eru oft hlutfall af pottinum, t.d 1/2, 3/4, jafnhá pottinum eða hærri.
 11. Að þriðju veðmálsumferð lokinni brennir gjafari í þriðja sinn og setur lokaspilið í borðið. Þetta spil er fimmta borðspilið (the river). Spilarar geta notað bæði holuspilin sín og einhver þrjú borðspil, annað holuspilið og fjögur  borðspil eða öll borðspilin (lætur borðið gilda).
 12. Fjórða og síðasta veðmálsumferð hefst á spilara til vinstri við hnappinn.
 13. Þar sem þetta er síðasta umferðin þurfa þeir spilarar sem ekki hafa pakkað í lok lotunnar að sýna spilin sín. Það kallast sýning (showdown) og hefst á spilaranum til vinstri við þann spilara sem var síðastur til að kalla eða athugar (checks).
 14. Sá spilari sem hefur bestu höndina vinnur pottinn. Ef spilarar hafa sömu hendi er pottinum skipt jafnt milli þeirra.

Allt um pókermót á einu blaði

Þú getur sótt einblöðung með öllum upplýsingar sem þarf til að halda pókermót og gott er að hafa við höndina þegar spilað er.
Sækja