Spilaháttur/-stíll (playing/betting style)

Líkt og í hinu almenna samfélagi eru engir tveir spilarar eins í pókersamfélaginu. Þrátt fyrir það er hægt að flokka spilara eftir spilháttum þeirra. Með tímanum finna spilarar sinn stíl sem hentar þeim þó svo mikilvægt sé að breyta oft milli stíla (hátta).

Hér má sjá útskýringar á nokkrum algengum spilaháttum.

 

Áður en litið er á útskýringarnar er vert að benda á að:

  • áhættulítill (tight) og óútreiknanlegur (loose) lýsir því hversu mörgum pottum spilari tekur þátt í.

  • sækinn (aggressive) og varkár (passive) lýsir því hvernig spilari veðjar í veðmálsumferðum.

 

 

Áhættulítill en sækinn (tight-aggressive)

Spilari sem beitir þessum stíl velur hendur sínar vel í fyrstu veðmálsumferð, pakkar oft og spilar aðeins á spil sem  hafa góða vinningsmöguleika.

Þegar hann er hins vegar kominn í pottinn er fátt sem heldur aftur af honum  og hann verður sækinn (aggressive). Hann er mun líklegri til að hækka eða endurhækka í stað þess að kalla.

Af mörgum sérfróðum mönnum um Texas Holdem er þessi stíll talinn vera líklegastur til að skila mestu í buddunum og spilarar ættu að tileinka sér. Mikilvægt er þó að skipta milli stíla, jafnvel oft á sama klukkutíma.

Óútreiknanlegur og sækinn (loose-aggressive)

Hér er á ferðinni spilari sem vill vera með í mörgum pottum hvort sem hann hefur góð eða slök holuspil á hendi. Hann kýs fremur að hækka eða kalla í stað þess að pakka.

Eftir fyrstu veðmálsumferð er hann sækinn (aggressive) og er tilbúinn að hækka eða endurhækka þrátt fyrir að vera jafnvel með slaka eða meðalgóða hönd.

Þessi stíll getur oft gefið vel þar sem mótspilarar sjá ekki fyrir þegar spilari sem beitir þessum stíl hittir á ofurhendur (monster hands) en það þarf reynslu, þor og klókindi til að beita honum á árangursríkan hátt. Ekki er mælt með að byrjendur notast við stílinn.

Áhættulítill og varkár (tight-passive)

Spilari sem beitir þessum stíl velur hendur sínar vel, er áhættulítill (tight) og pakkar oft í fyrstu veðmálsumferð. Hann er líklegur til að spila nánast eingöngu á góð holuspil, s.s. , eða miðlungs eða hátt holupar (ekki líklegur til að leggja mikið undir á eða lægra).

Þegar í pottinn er komið, eftir veðmálsumferð eitt, sýnir spilarinn varkárni í veðmálum (passive) og er líklegri til að kalla (call) eða athuga (check) fremur en að hækka eða endurhækka.

Til að vinna pott í póker þarftu að hafa betri hönd eða fá andstæðinginn til að pakka. Með of mikilli varkárni er spilari búinn að minnka möguleikana úr tveimur í einn, að vera með betri hönd.

Óútreiknanlegur en varkár (loose-passive)

Spilari sem notar þennan stíl vill vera með í mörgum pottum og spilar því á margar hendur. Eftir að í pottinn er komið, eftir veðmálsumferð eitt, heldur hann sig þó til baka og er líklegri til að kalla (call) eða athuga (check) fremur en hækka eða endurhækka.

Af mörgum er þetta talinn sá stíll sem er hvað minnst arðbær og er stundum nefndur kallstöðin (calling station). Spilari sem notar þennan stíl er líklegur til að kalla eða athuga út í gegnum allar veðmálsumferðir þrátt fyrir að hafa ekki sterka hönd en ef hann hefur ekki hitt á neitt í 3. og 4. veðmálsumferð (turn og river) er líklegt að hann pakki (fold).